144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eftir tíðindi síðustu dægra vaknar sú von að það sé að rofa til í ríkisfjármálum eftir þá aðgerðaáætlun sem lögð hefur verið fram og unnin undir forustu seðlabankastjóra og góðra fagmanna, innlendra og erlendra, og fyrir atbeina allra flokka. Ætli það megi ekki nefna nöfn svona til tákns, þeirra hv. þingmanna og núverandi og þáverandi hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar, Árna Páls Árnasonar og Bjarna Benediktssonar. Að lokum var samningaleiðin farin, eins og hv. þm. Róbert Marshall benti á. Stefna fyrrverandi ríkisstjórnar í þessum málum varð ofan á enda er samningaleiðin yfirleitt farsælust til lengdar þó að hún dugi ekki alltaf. Niðurstaðan er þessi. Bæði núverandi ríkisstjórn og sú síðasta völdu sömu leið, samningaleiðina. Að lokum er sama meginstefnan tekin á kjörtímabilunum tveimur.

Það er athyglisvert að þótt núverandi ríkisstjórn sé eins og gamla ríkisstjórnin að þessu leyti þá er núverandi stjórnarandstaða ekki eins og gamla stjórnarandstaðan að þessu leyti. Nú fagnar stjórnarandstaðan því sem hefur gerst og bendir auðvitað á þann þátt sem síðasti þingmeirihluti átti í þessu máli, en síðast beittu stjórnarandstöðuflokkarnir tveir kjafti og klóm gegn því að grunnur væri lagður að lausn af þessu tagi. Skemmst er að minnast atkvæðagreiðslunnar í mars 2012 og síðan heitstrenginganna um kylfur og haglabyssur, orðanna um landráð og samstöðu með kröfuhöfum.

Það má taka undir spurninguna í leiðara Fréttablaðsins í dag, sem heitir einmitt „Samningaleiðin varð fyrir valinu“. Þar er spurt af hverju hafi þurft að bíða heil tvö ár með að fara samningaleiðina, með því að hefja þessar samningaviðræður. Þar segir að það þurfi að bera saman þessar tvær áætlanir og sjá hverju við höfum tapað á því að bíða í tvö ár með að fara þá leið (Forseti hringir.) sem þegar hafði verið mörkuð í tíð síðustu ríkisstjórnar. (Forseti hringir.)

Ein setning að lokum, forseti: Það sem nú þarf hins vegar að gera er að ákveða til frambúðar hvernig samfélag við ætlum að byggja upp eftir þetta og má þá vel minna á að meðan (Forseti hringir.) þetta gerist, sem hér er fagnað á þinginu, stendur ríkið sjálft í hörðum kjaradeilum við að minnsta kosti tvo mikilvæga hópa í samfélaginu.