144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að stíga í ræðustól í dag til þess að fagna gærdeginum og framtíðinni, því að í gær varð söguleg stund í málefnum íslenskrar þjóðar þegar kynntar voru áætlanir ríkisstjórnarinnar til að aflétta gjaldeyrishöftum. Ég hlakka til að taka þátt í umræðu um þetta mál á morgun og ég mun leggja mikla áherslu á að þeir fjármunir sem þarna kunna að koma til ríkissjóðs verði nýttir til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnað ríkisins o.s.frv., svo að það megi koma sem flestum til góða.

Erindi mitt hingað í dag var ekki síður að segja frá öðru máli sem ég tók þátt í í Riga nýlega ásamt þingmönnum Norðurlandaráðs þar sem við áttum samtal við lettnesk yfirvöld til að fræðast um stöðuna og bjóða hjálp Norðurlandaþjóða í baráttunni gegn mansali. Við hittum fulltrúa mannréttindanefndar lettneska þingsins, innanríkisráðuneytisins, saksóknara og lögreglu. Auk þess hittum við systursamtök Stígamóta á Íslandi sem kallast MARTA, en þar er unnið mjög gott starf til að aðstoða fórnarlömb mansals og uppfræða almenning. Við buðum, Norðurlöndin, fram aðstoð við lettnesk yfirvöld og lýstu þingmenn yfir miklum vilja til að nota stjórnmálavettvanginn á Norðurlöndum til að aðstoða nágranna okkar í baráttunni við þessa þrælasölu nútímans.

Ég vil skora á okkur Íslendinga að vera vel á verði þegar mansal (Forseti hringir.) er annars vegar, en því miður hafa komið upp nokkur mál hér á landi og um langt skeið hafa dansstaðir eða kampavínsklúbbar átt upp á pallborðið hér á landi sem sterkar grunsemdir eru um að tengist vændi og mansali.