144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er mjög mikið umhugsunarefni hvort þingmenn almennt taki þessa ríkisfjármálaáætlun nægilega alvarlega, að þetta sé það stefnumarkandi plagg sem slík áætlun á að vera. Það er mjög gott að við ætlum að fara að vinna með slíkar áætlanir. Íslendingar hafa verið þekktir fyrir að hugsa ekkert of langt fram í tímann þegar þeir skipuleggja hlutina. En mig langar aðeins að heyra hjá hv. þingmanni varðandi frumgjöldin. Þau eru miklu lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu hjá okkur en annars staðar á Norðurlöndunum, sem menn vilja bera sig saman við þegar þeir ræða kjarasamninga, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan. Getum við verið samkeppnisfær um fólk og fyrirtæki ef við erum ekki á sama stað varðandi frumgjöldin, það hlutfall af vergri landsframleiðslu, (Forseti hringir.) til að byggja upp alla innviði samfélagsins í framtíðinni?