144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki um það segja. Þá hefur bæst í, þá eru ekki lengur 72 frumvörp sem þarf að afgreiða fyrir þinglok, nú eru þau orðin 73. Þetta er nýkomið fram.

Ríkisstjórnin er ekki búin að setja fram forgangsmál sín. Það er alveg ljóst að við afgreiðum ekki 72, 73 eða 74 mál á þessu þingi nema við verðum fram yfir verslunarmannahelgi og það er spurning. Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta frumvarp um húsnæðisbæturnar verður á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Ég treysti mér ekki til að segja til um það.

Það sem mér finnst vera skrýtið við þessa ríkisfjármálaáætlun er að það eru engin mörk, það eru hvergi efri eða neðri mörk. Í fyrsta lagi er hún ekki alveg eins og við vildum hafa hana en þetta er líka í fyrsta sinn sem hún er lögð fram. Við fyrirgefum það, en þá hefðu átt að vera efri og neðri mörk, þ.e. það væri hugsanlega hægt að gera þetta ef þetta gerðist og ef eitthvað annað gengur illa þá erum við með lægri mörk. Það er ekkert slíkt í þessari áætlun, sem er vont mál. Það eru engir „böfferar“ þarna inni. Áætlunin er að því leytinu mjög skrýtin og það er auðvitað ekki hægt að fara ofan í hana með tilliti til einstakra útgjaldaliða. Þess vegna hefur fólk verið að tala um stóru atriðin. Það vantar allt fyrir húsnæðismálin, það vantar allt fyrir Landspítala. Bankasalan stenst ekki samkomulag. Framsóknarflokkurinn talar gegn bankasölunni, heyrist mér, þannig að það er margt mjög óljóst í þessu dæmi öllu saman.