144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég er svolítið hugsi yfir því að hér erum við í raun að vinna með plagg sem fjármálaráðherra er skyldugur að leggja fram samkvæmt þingsköpum, en í 6. mgr. 25. gr. þingskapa segir að með tillögunni um meginskiptingu útgjalda næsta árs skuli fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára á eftir. Hér er því ekki um að ræða valkvætt mál heldur mál sem hæstv. ráðherra er skyldugur að leggja fram fyrir Alþingi. Síðan kemur í ljós þegar umfjöllun um málið vindur fram og það stendur þannig á spori að við erum að fjalla um það akkúrat þegar miklar stærðir eru að hreyfast í hagkerfinu og í nábýli við hagkerfið, ef svo má að orði komast, að menn láta eins og ekkert hafi í skorist og láta bara eins og eðlilegt sé að halda vinnunni áfram með puttann í eyrunum og blöðkur fyrir augunum. Mér finnst það vera áhyggjuefni vegna þess að ég sé ekki betur en það sé ekki mjög flókið að uppfæra málið. Auðvitað liggur fyrir að ekki verður farið ofan í áætlunina sem slíka með mjög miklum tilfæringum, en mér finnst það eiginlega lágmark að nefndarálitin séu uppfærð í samræmi við þann veruleika sem hefur breyst bæði í gær og svo náttúrlega líka með aðgerðum tengdum kjarasamningum. Í meirihlutaálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í áætluninni kemur fram að þrátt fyrir að jákvæð teikn séu á lofti á öllum helstu sviðum ríkisfjármálanna séu veigamiklir óvissuþættir fyrir hendi. Þar munar mestu um útkomu kjarasamninga og afnám fjármagnshafta …“

Þetta segir í nefndarálitinu sem við erum að fjalla um núna og mér fyndist bragur að því og ég held að það þyrfti ekki að taka langan tíma ef nefndin tæki málið aftur inn og gerði bara lágmarksbreytingar á nefndarálitinu. Þó að maður sé ekki að gera kröfu til þess að ríkisfjármálaáætlunin sé tekin upp í heild sé það að minnsta kosti ekki þannig að það líti út eins og þingið hafi verið sofandi við afgreiðslu og úrvinnslu þessara mála.