144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að það er náttúrlega út í hött að afgreiða tillögur sem við getum ekki vitað hvað liggur á bak við. Það snýr auðvitað upp á framsóknarmenn að svara fyrir það hvort þeir ætli að selja hlutinn í Landsbankanum eða ekki eða hvort þeir vilji að hann verði seldur. Ég hef ekki hugmynd um það og vildi einmitt gjarnan að þingmenn Framsóknarflokksins gerðu grein fyrir þessu.

Hv. þingmaður talaði annars vegar um launaforsendurnar og hins vegar það sem snýr að almannatryggingum. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær að batnandi hagur ríkissjóðs ætti að skila sér í batnandi hag almennings. En miðað við það að hér er einungis gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 1% umfram verðbólgu og í ljósi þess að þá megi kannski vænta þess að það verði hægt að koma með 500 milljarða kr. lækkun (Forseti hringir.) á skuldum ríkissjóðs, er hægt að draga aðra ályktun af þessu en að öryrkjar og að aðrir lífeyrisþegar séu ekki almenningur?