144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni hvað það varðar, það er auðvitað mjög skrýtið að þegar í landinu eru í gildi lög sem segja að bætur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun og verðlagsþróun skuli ríkisvaldið og stjórnarmeirihlutinn koma bara fram með skýra stefnu um það að lífeyrisþegar eigi að dragast aftur úr. Það þýðir auðvitað að ef kaupmáttaraukning þeirra á að vera 1% og hinna 2% er það skipuleg ákvörðun um að láta lífeyrisþega dragast aftur úr. Það stenst ekki gildandi lög í landinu.

Ég minni síðan á það að snemmsumars 2009 samþykktum við áætlun í ríkisfjármálum til fjögurra ára sem hélt í stórum dráttum. Hún skuldbatt hins vegar líka stjórnarmeirihlutann á þeim tíma. Við skrifuðum þá upp á skattahækkanir sem við vorum ekki öll tilbúin að ráðast í og niðurskurð sem við vorum ekki öll tilbúin að ráðast í en hann skuldbatt okkur um meginlínurnar og við stóðum síðan við þær í kjölfarið. (Forseti hringir.) Til þess eru svona áætlanir, ekki til þess bara að segja eitthvað allt annað en menn ætla að gera.