144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég held að við séum sammála um að þetta eru ákveðin tímamót í sjálfu sér þó að við höfum kannski lagt fram eitthvað sambærilegt hér áður eins og hefur komið fram. Þá er einmitt líka mikilvægt að hér sé ekki bara eitthvert plagg til umræðu og fólk skýli sér á bak við það að um áætlun sé að ræða, mér hefur fundist það vera helstu svörin, sem hefur þá tekið slíkri kollsteypu að það er óhætt að taka hana inn aftur og ræða hana betur.

Það er allt í lagi að rifja upp að þeir sem voru hér við stjórnvölinn á síðasta kjörtímabili sögðu þegar verið var að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum að mikilvægast væri að reyna að breyta vaxtagjöldunum yfir í velferð og tryggja að ríkið héldi ekki áfram að safna skuldum. Það var kannski líka gott að við fórum ekki hratt í niðurskurðinn, þ.e. ekki hraðar en við þó gerðum. Ég hef aðeins áhyggjur af því pólitíska inntaki sem hérna birtist og kemur fram í því að lækka samneysluna. Það kemur meðal annars fram á bls. 38 þar sem stefnumiðin um útgjaldaþróunina koma fram þar sem talað er um hagræðingu og minnkun hlutfalls útgjalda til ákveðinna málaflokka. Ég held að það sé óhætt að hafa miklar áhyggjur af því ef við erum að tala um heilbrigðiskerfi, menntakerfi og lífeyrisgreiðslur og má velta fyrir sér hvort hér sé verið að leggja í þá vegferð að ætla að auka enn bilið á milli fólks með því að auka gjaldtökur. Mér finnst þetta ekki vera framtíðarpólitík. Af því að við erum alltaf að bera okkur saman við Norðurlöndin hef ég af því áhyggjur að við erum í samanburðinum við þau ekki nálægt neinu hvað þetta varðar. Ég spyr þingmanninn hvort hann sé mér sammála um að það sem þarna kemur fram og í þessu plaggi sé raunverulega þannig að það sé verið að auka bilið á milli fólks og þá ekki bara, eins og hér var verið að ræða áðan, öryrkja og annarra heldur með þeirri stefnu sem birtist hérna, m.a. í skattamálum.