144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er sammála því að þetta er auðvitað ekki stefna sem er mér sérstaklega hugnanleg, sú stefna sem þarna er lýst. Ef við berum okkur saman við nágrannalöndin er til dæmis kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu miklum mun meiri hér en í nágrannalöndunum. Núna stendur yfir kosningabarátta í Danmörku þar sem sitjandi ríkisstjórn, jafnaðarmenn, lofar áfram ókeypis heilbrigðisþjónustu, að menn þurfi ekki að borga fyrir heimsóknir til lækna, en stjórnarandstaðan boðar aukna kostnaðarþátttöku. Svo er með mörgum hætti öðrum sem Danir hemja til dæmis sjálftöku þeirra sem veita þjónustuna í kerfinu. Við höfum mjög lítið slíkt til að hemja það að í sjálfu sér læknar og þeir sem veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu skilgreini sjálfir þarfirnar og sendi bara reikninga. Þar eru miklu meiri hömlur í nágrannalöndunum og við gætum kannski lært af því.

Mér finnst merkilegast með þessa ríkisstjórn að hún ræður ekki við það að halda áfram með augljósasta sparnaðarþáttinn í ríkiskerfinu. Auðvitað þarf alltaf að halda aftur af óþarfaútgjöldum þar. Við hófum þá vegferð í síðustu ríkisstjórn að stefna að sameiningu ríkisstofnana þannig að það bitnaði ekki á þjónustunni heldur fækkuðum við í yfirstjórn, stoðstofnunum og stoðdeildum. Þessi ríkisstjórn er að fjölfalda allar ríkisstofnanir. Hún eykur tilkostnað og brýtur upp litlar ríkisstofnanir með því að sáldra þeim algerlega tilviljanakennt um landið. Ég hef ekki séð eina einustu framkvæmanlega sameiningarhugmynd frá þessari ríkisstjórn. Það er auðvitað mikið afrek að hún ræður bara ekkert við alvöruhagræðingu í ríkisrekstri. Þar eru (Forseti hringir.) sóknarfærin sem eftir eru.