144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í núverandi kerfi hefði verið hægt að mæta helstu sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar um úrlausn fyrir meðaltekjuhópa sem greinilega eru þeir sem helst njóta boðaðra skattbreytinga ríkisstjórnarinnar. Vandi ríkisstjórnarinnar er að hún er bara föst í einhverri meinloku um að hún geti ekkert gert fyrir lágtekjufólk og lífeyrisþega í skattamálum vegna þess, eins og fjármálaráðherra klifar gjarnan á, að þeir borgi enga skatta til ríkisins.

Hækkun skattleysismarka og þróun á þeirri hugmynd sem ég veit að var í umræðu milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisins um breytileg skattleysismörk hefði akkúrat getað verið til mikillar úrlausnar fyrir lágtekjufólk og lífeyrisþega og mætt að stóru leyti þörf þessara hópa fyrir úrlausn sem nú hefur ekki verið svarað, hvorki með kjarasamningunum né með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) um hvernig hún ætli að bregðast við kjarasamningum. Það fólk liggur enn þá óbætt hjá garði, aldraðir og örorkulífeyrisþegar.