144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er satt að segja dálítið hissa á því að þessi tillaga, þessi ríkisfjármálaáætlun, skuli enn vera á dagskrá. Ég hefði haldið að aðstandendur málsins, hæstv. fjármálaráðherra eða þá meiri hluti fjárlaganefndar, hefði að eigin frumkvæði og eigin óskum, annaðhvort fjármálaráðherra kallað tillöguna til baka eða meiri hluti fjárlaganefndar óskað eftir því að fá hana aftur til umfjöllunar til að skila þá framhaldsnefndaráliti ef menn stefndu enn á afgreiðslu hennar og gera þar grein fyrir að minnsta kosti og setja fyrirvara um framhaldið í þessari áætlun í ljósi margvíslegra og augljóslega breyttra forsendna. En auðvitað verða aðstandendur málsins að eiga það við sig hvort þeir vilja standa svona að málum og þá ekki sýna þessari vinnu meiri virðingu eða leggja meiri metnað í hana en þetta. Það er okkur öllum ljóst og það er ekki flókið að fara yfir það að verulegar breytingar hafa orðið á sumum grundvallarforsendum þessa máls frá því að það var fyrst lagt fram.

Í fyrsta lagi er tillagan sjálf mjög veik og olli vonbrigðum þegar það kom hér fram sem reyndar mátti ráða af gögnum með fjárlagafrumvarpi í haust að framtíðarsýnin var ekki metnaðarfull fyrir hönd afkomu ríkisins næstu fjögur árin. Það ber tillagan svo sannarlega með sér og þegar svo við bætast núna ýmsar breyttar forsendur sem að vísu geta sumpart gengið í báðar áttir er ærin ástæða til að staldra við. Ég er líka sannfærður um að verkefnið í hagstjórn á Íslandi á komandi missirum er allt annað en ætla mætti af lestri þessarar tillögu og var hún þó nógu daufleg fyrir hvað varðar til dæmis það að ríkisfjármálastefnan mundi styðja við verkefni peningastefnunnar og hlutverk Seðlabankans á næstu missirum. Það gerir hún ekki. Ef maður er nú svartsýnn eða þó ekki sé nema bara vísi til reynslunnar gæti maður farið að óttast að við værum að sigla inn í gamalkunnugt ástand þar sem ríkisfjármálin vísa í vestur og viðleitni Seðlabankans í austur.

Nú er því haldið fram og það hefur verið að birtast í gögnum undanfarið hálft til eitt ár og er raunar staðfest og viðurkennt af öllum núna að svonefndur slaki í þjóðarbúskapnum sé búinn, hann sé upp unninn. Landsframleiðslan er núna orðin meiri að raungildi en hún var fyrir hrun og atvinnuleysi og fleiri þættir hafa þróast með það jákvæðum hætti um allnokkurt árabil að slakinn er uppurinn. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að handan við hornið getur verið þensla, verðbólga og jafnvel ofhitnun ef menn gæta ekki að sér. Þessu finnst mér enginn gaumur gefinn í þessari ríkisfjármálaáætlun og satt best að segja hefur ríkisstjórnin ekkert verið með í umræðum um það að við erum komin á nýjan stað í hagsveiflunni. Eftir samfelldan hagvöxt frá síðustu mánuðum ársins 2010, minnkandi atvinnuleysi og fleiri þætti, vaxandi fjárfestingar o.s.frv., t.d. í íbúðabyggingum og hótelbyggingum, með því að nokkrar meðalstórar fjárfestingar eru að koma inn í hagkerfið akkúrat þessi missirin, og var nú ánægjulega staðfest í gær að ein þeirra er að bætast við, hátt í 100 milljarða fjárfestingar í Þingeyjarsýslum á þessu og næstu tveimur árum, það telur í þessu samhengi, eru viðfangsefnin sem ég tel að blasi við og séu fram undan í hagstjórn allt önnur en ráða mætti af lestri þessarar tillögu.

Hagstofan skilaði í morgun ársfjórðungsuppgjöri. Það er blendið, má segja, það er 2,9% hagvöxtur frá ári til árs, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015 borið saman við fyrsta ársfjórðung ársins 2014 en árstíðaleiðréttar tölur eru reyndar aðrar og lakari. Þá er um samdrátt að ræða upp á 1,5% frá síðasta ársfjórðungi liðins árs. Hér þarf að vísu að hafa í huga að birgðabreytingar eru miklar og auknar birgðir í landinu sem dregur úr vægi útflutnings, kemur þá fram í birgðum, en það er engu að síður ýmislegt í þessari niðurstöðu Hagstofunnar sem hefði átt fullt erindi inn í skoðun viðkomandi þingnefndar á þessu máli, svo sem eins og sú staðreynd að innflutningur eykst líklega fjórfalt á við útflutning. Vöruinnflutningur eykst um það bil fjórfalt á við vöruútflutning, að vísu aftur með fyrirvara um birgðabreytingar. Vegna gjöfullar loðnuvertíðar og af fleiri ástæðum jukust birgðir mjög í landinu á fyrsta ársfjórðungi. Þetta eru samt viðvörunarmerki og vöruskiptajöfnuðurinn hefur á síðustu tveimur, þremur missirum farið úr afgangi í núll. Ef ekki kæmi til hinn mikli uppgangur ferðaþjónustunnar og gríðarlegur afgangur á þjónustujöfnuði væri viðskiptajöfnuðurinn í heild ekki mikið til að hrópa húrra fyrir.

Ef við bætum svo við fréttum gærdagsins og kjarasamningunum eða því sem gæti að minnsta kosti verið að verða niðurstaðan á stórum hluta almenna vinnumarkaðarins eru þetta það miklar breytingar að það eru skot út í loftið að afgreiða þessa gömlu áætlun sem er líklega sett saman í janúar, febrúar og kannski fram í mars eins og málin standa núna. Af hverju vilja menn það þá? Ég hefði fullan skilning á því þótt hæstv. fjármálaráðherra óskaði eftir því við þingið að kalla þessa tillögu til baka og lofaði þá ítarlegri umfjöllun um þessi mál í fylgihefti fjárlagafrumvarpsins í haust og jafnframt, og það sem væri auðvitað æskilegt að væri stefnt á, að fullbúin þingsályktunartillaga um raunverulega ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára með römmum fyrir helstu málasvið kæmi svo fram hér tímanlega á næsta vetri, helst ekki seinna en í febrúar eða byrjun mars þannig að Alþingi hefði góðan tíma til að vinna með það mikilvæga plagg. Ef menn ætla að taka þessa aðferðafræði alvarlega, festa niður rammana, takast á um það pólitískt hvort eðlileg skipting sé þar á ferðinni, hvort við séum þá að horfa næstu fjögur ár af raunsæi til dæmis til þarfanna í heilbrigðiskerfinu og með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og því um líkt þegar við skiptum kökunni milli málaflokka, væri þar til mikils unnið og í góðu samræmi við þá aðferðafræði sem undirbúin hefur verið og stefnt að undanfarin mjög mörg ár.

Einhverjir kunna að halda, og ég hef aðeins heyrt það í umræðunni, að nú þurfi menn ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu öllu saman því að það muni svo miklir peningar flæða inn í Seðlabankann og/eða ríkissjóð vegna nauðasamninga föllnu bankanna að við getum sáldrað silfrinu í allar áttir. En það er ekki svo einfalt og þvert á móti er það þannig að ef þessar greiningar eru réttar, að slakinn sé búinn í hagkerfinu, er stutt í þenslu. Við sjáum merki hennar á ákveðnum stöðum, við sjáum fasteignabólu í ákveðnum hverfum Reykjavíkur, það er ekki hægt að kalla það annað, við sjáum klárlega fasteignabólu í skrifstofuhúsnæði sem hækkar um ein 25% á ári tvö ár í röð. Hvað er það annað en bóla? Ekkert annað. Og það þarf að fara að hafa augun mjög á þessu vegna þess að við eigum að spyrja hinna gagnrýnu spurninga áður en það er um seinan. Við megum aldrei aftur endurtaka mistökin frá árunum eftir aldamótin síðustu og fram að hruni, að allir sefjist í einhverri veislustemningu og hrópi niður þá sem mæla varnaðarorð og koma með réttmæta gagnrýni.

Það var alveg yfirgengilegt andrúmsloft, það var bara eins og talað væri í vegg þegar bent var á hin augljósu hættumerki ofhitnunarskuldsetningar og þenslu sem þá geisuðu. Ef þetta er rétt þurfum við að fara varlegar en ella með allt tal um það að við getum bætt í hagkerfið sem er að fara yfir í þenslu og hitnun viðbótarfjármunum sem koma bókhaldslega gegnum uppgjör gömlu þrotabúanna. Það er þvert á móti. Við verðum að taka þar hverja einustu krónu úr umferð og rúmlega það. Raunverulegur rekstur ríkissjóðs verður þá að vera hjálplegur í þeirri sveiflujöfnun sem þarf að eiga sér stað. Og það er kannski mikilvægasta einstaka verkefnið sem menn hefðu mátt hafa betur í huga í gær, (Forseti hringir.) a.m.k. sumir hverjir, væntingastjórnun. Það er væntingastjórnun núna í efnahagsmálum á Íslandi