144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi forsendurnar er ég ekki viss um að ég muni þess alveg dæmi að menn hafi, a.m.k. fyrirvaralaust og án þess að slá þá meiri varnagla þegar komin eru upp og fram sýnileg gögn um að forsendurnar eru farnar fyrir borð, látið sig samt hafa það að afgreiða mál mörgum vikum og jafnvel mánuðum síðar þegar þeir hafa haft nógan tíma til að takast á við það. Það væri strax skárri svipur þótt fjárlaganefnd eða meiri hluti hennar gerði ekki meira en að kippa málinu til sín, leggja fram framhaldsnefndarálit, slá varnagla, setja fyrirvara og boða endurskoðun.

Alþingi hefur séð ýmislegt og auðvitað hafa margar áætlanirnar verið svona og svona. Við getum tekið samgönguáætlanir sem stundum hafa verið það sem við köllum mjög feitar í afturendann. Menn hafa oft látið eftir sér bjartsýni af því tagi en það er þó þannig að við erum að sýna eitthvað sem gæti orðið að veruleika í einhverri framtíð sem við vitum ekki hvernig verður. En hér erum við að tala um nútíðina. Við erum bara með það í höndunum í núinu að margar forsendur þessarar áætlunar eru fallnar með meira að segja ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Varðandi flokksþing Framsóknar — það er skaði að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason er ekki lengur í salnum — hef ég verið að velta því fyrir mér ef maður má segja það, frú forseti, á hverju þeir voru þarna eiginlega á flokksþingi Framsóknarflokksins. Ef maður fer yfir það sem þar var samþykkt, eins og það að selja alls ekki Landsbankann, eiga hann bara allan sem samfélagsbanka, þó að hér séu áætlanir og plögg frá ríkisstjórninni sjálfri um hið gagnstæða, eins og að engir bónusar eigi að vera í bankakerfinu, þó að stjórnarfrumvarp liggi inni um að leyfa bónusa, eins og að það eigi ekki að leggja niður Bankasýslu ríkisins, þó að stjórnarfrumvarp liggi inni um að gera það, fer maður að velta fyrir sér í hvaða andlegu ástandi þeir hafi verið þarna á flokksþingi Framsóknarflokksins. Þetta er svo mótsagnakennt að það hálfa væri nóg.