144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég held að það yrði öllum til framdráttar. Ég held að fjármálaráðherra mundi bara vaxa að virðingu af því. Ég held að aðilar vinnumarkaðarins og markaðurinn mundu líka skilja það og taka því vel. Menn mundu taka það sem merki um að menn vildu vanda sig og vera ábyrgir og þegar forsendur væru breyttar settust menn yfir það í staðinn fyrir að sulla þessu áfram óbreyttu í gegn eins og menn séu með bundið fyrir bæði augu.

Ef við tökum aðeins betur þetta með væntingastjórnun eða skilaboðin, við skulum kalla það bara á íslensku skilaboðin, sem menn geta lesið út úr þessari tillögu og þessari áætlun gætu menn haldið á yfirborðinu að það væri góð væntingastjórnun að leggja fram ríkisfjármálaáætlun sem ekki sýnir mikinn vöxt ríkisútgjalda. Fjárfestingar eiga til dæmis ekki að aukast neitt, þær eiga að haldast bara óbreyttar sem eru afar dapurleg skilaboð fyrir þá sem vilja gera meira í vegamálum eða skólum og heilbrigðiskerfi. Aðeins 1,2% af vergri landsframleiðslu eiga að fara til opinberra fjárfestinga næstu fjögur ár. Jú, jú, það eru örlítið fleiri krónur á hverju ári ef hagvöxtur heldur áfram en engin raunaukning í þeim skilningi að við leggjum meira til þessa málaflokks. En þegar betur er að gáð og farið er dýpra í saumana á þessari áætlun er hún ekki góð væntingastjórnun. Hún felur ekki í sér góð skilaboð.

Ég segi fyrir mig að ef ég væri bara Jón Jónsson úti í samfélaginu sem hefði samt einhverja nasasjón af ríkisfjármálum og efnahagsmálum mundi ég vilja sjá ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára sem sýndi áframhaldandi bata í afkomu ríkissjóðs og stigvaxandi afgang á hverju ári. Þá mundi ég fara heim og segja: Gott. Fínt. Mér líður vel. Þetta verður í lagi. Það á að stunda ábyrga hagstjórn á Íslandi af hálfu ríkisins og það á að styðja við það sem augljóslega blasir við fram undan sem verkefni Seðlabankans. En þannig er þetta ekki, því miður, þar sem (Forseti hringir.) þessi áætlun er ónýt í mörgum skilningi, líka þeim að hún sendir alls ekki rétt skilaboð.