144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun. Ég hef þegar komið í mína fyrstu ræðu og rætt það sem snýr að velferðarmálum. Reyndar kom ég sáralítið ef nokkuð inn á endurnýjun húsakosts Landspítalans og ætla að byrja þessa ræðu á örfáum orðum um vonbrigði mín yfir því að ekki verði komist lengra en að hanna húsnæðið á næstu árum en ekki hefja framkvæmdir og reyna að hraða þeim eins og hægt er nema þá á sjúkrahótelinu. Ég tel þetta óraunhæft og til þess fallið að veikja enn frekar heilbrigðiskerfið.

Nú ætla ég að fara almennt í ríkisfjármálin og kannski efnahagsmálin og hinn títtumtalaða efnahagsstöðugleika. Á bls. 5 í ríkisfjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Þá er stöðugleiki í efnahagsmálum jafnframt mikilvægur fyrir undirbúning aðgerða til afnáms fjármagnshafta.“

Það sem verið er að gera í þessari ríkisfjármálaáætlun er að verið er minnka enn frekar umfang teknanna með skattalækkunum. Það er verið að bæta eitthvað örlítið inn í soltin kerfi ríkisins, alls ekki nóg, og við höfum gagnrýnt það í umræðunni að þetta sé óraunhæf áætlun, það þurfi að leggja meira inn í opinbera kerfið. Síðan hefur það gerst í millitíðinni að ríkisstjórnin hefur gefið út yfirlýsingu um kjarasamninga, það á að lækka skatta enn frekar þannig að tekjur ríkissjóðs verða enn minni, og síðan hefur verið boðuð losun fjármagnshafta. Það er sannarlega gleðiefni sem ég ætla að fagna og óska ríkisstjórninni til hamingju, sérstaklega fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssyni sem keyrði áfram stefnu stjórnvalda sem mörkuð var við setningu haftanna og hafði betur í deilum sínum við hæstv. forsætisráðherra um það hvort fara ætti samningaleið eða dómstólaleið. Nú verður þess freistað að fara samningaleiðina og eins og sjá má af viðbrögðum er almenn ánægja með þá leið. Það þýðir líka að ýmis atriði í þessari áætlun þarf að skoða. Það þarf að skoða áætlunina bæði út frá því hvort hún sé raunhæf miðað við yfirlýsingar út af kjarasamningum og hvernig eigi að bregðast við áhrifum af losun fjármagnshafta.

Hér er komið fram frumvarp um stöðugleikaskatt. Auðvitað vonum við að samningar náist þannig að það þurfi ekki að beita honum, en þar er ágæt greinargerð frá fjármálaráðuneytinu og þá er verið að tala um skuldalækkun sem verður farið í með tekjum vegna skattsins. Ef samningar nást verður um svokallaða krónuhreinsun að ræða og þá verða fjármunir sem koma þar inn nýttir með sama markmiði sem er að lækka skuldirnar. Þá kemur fram sem er ákaflega ánægjulegt að vaxtagjöld ríkisins lækka um 35 milljarða. Það er ágætt að minna á að við í Samfylkingunni töluðum alltaf um að við vildum breyta vöxtum í velferð, við vildum greiða niður skuldir til að draga úr vaxtakostnaði og nýta muninn í menntakerfið, heilbrigðiskerfið og ýmsa félagslega þjónustu og almannatryggingar í staðinn.

Nú er vonandi verið að lækka vaxtakostnaðinn, vonandi tekst okkur það sameiginlega með þessum aðgerðum, en það er alls óljóst með hvaða hætti þessir fjármunir verða nýttir. Verða þeir nýttir til enn frekari skuldaniðurgreiðslu? Verða þeir notaðir sem sparnaður vegna lífeyrisskuldbindinga? Verða þeir notaðir til enn frekari vaxtalækkana? Aðgerðir sem þessar hafa mjög víðtæk áhrif inn í hagkerfið.

Það sem er líka mjög mikils virði og ég mundi vilja að fjárlaganefnd ræddi áður en nokkur ríkisfjármálaáætlun getur verið samþykkt er spurningin: Hvaða skuldir verða greiddar niður? Það þýðir að peningar færast frá ríkissjóði yfir til einhverra annarra aðila. Eru það til dæmis lífeyrissjóðirnir? Þá sitja lífeyrissjóðirnir uppi með fjármuni sem þeir þurfa að koma í ávöxtun. Það eru fjármunir sem fara ekki beint úr ríkissjóði inn í hagkerfið, heldur í gegnum þá sem veittu lánin. En þessir peningar fara út í hagkerfið engu að síður. Það er mjög mikilvægt að við höfum einhverja mynd af því hvaða leið þeir fara út í hagkerfið svo við getum metið efnahagsleg áhrif af þessari skuldaniðurgreiðslu af því að það kann að vera að áhrifin verði það þensluhvetjandi að breyta verði áætlunum um skattalækkun.

Við höfum nefnilega áður farið með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í gegnum þenslutímabil þar sem allar væntingar voru drifnar upp á sama tímabili og verið var að einkavæða bankana og þeir að auka mjög útlán sín, bæði til fyrirtækja og heimila. Þá var verið að reisa Kárahnjúkavirkjun og þá voru skattar lækkaðir þannig að hagkerfið ofhitnaði. Við vitum öll hvernig það fór að lokum, það endaði með hruni, en það ber líka að muna að skattar voru lækkaðir þannig að þeir eyðilögðu tekjuöflunarmekanismann í ríkissjóði og því nauðsynlegt að vera hér með of heitt hagkerfi til að nægar tekjur kæmu inn í ríkissjóð.

Frú forseti. Ég vil að fjárlaganefnd skoði þetta. Við getum ekki samþykkt þessa áætlun án þess að það sé búið að fara yfir þessar sviðsmyndir. Ég get ekki skilið að fólk sé tilbúið hér til að gefa fyrirheit um skattalækkanir án þess að vera búið að greina stöðuna um áhrif á hagkerfið af losun fjármagnshafta.

Við höfum mörg komið upp í fundarstjórn forseta til að óska eftir því að þetta mál verði tekið af dagskrá enda óraunhæft að samþykkja áætlun sem er ekki lengur nokkuð að marka, ef það var þá eitthvað að marka hana í upphafi, en látum það vera. Þótt svo hefði verið hafa forsendur breyst og þetta er marklaust plagg. Alþingi Íslendinga getur ekki samþykkt áætlanir í ríkisfjármálum sem allir vita að eru algjörlega óraunhæfar. Ég held líka að í ljósi þess að að baki eru sjö mögur ár eftir alvarlegt hrun og í ljósi þeirrar úrvinnslu sem þurfti að eiga sér stað gagnvart fjármálakerfinu, gjaldmiðlinum, fyrirtækjum og ekki síst heimilum getum við ekki sýnt það ábyrgðarleysi að taka efnahagsmálin ekki alvarlega. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif fjármagnshaftalosunin muni hafa inn í hagkerfið, líka kjarasamningarnir og síðast en ekki síst hvaða væntingar eru í loftinu og hvaða áhrif þær muni hafa á hegðun til fjárfestinga og neyslu.

Þessum spurningum er algjörlega ósvarað, frú forseti. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða þetta mál að svo stöddu frá Alþingi.