144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það berjast innra með mér hægri maðurinn og vinstri maðurinn þegar ég pæli mikið í þessum málum. Það sem vekur svolítið athygli mína er það að til lengri tíma litið sjá menn fram á talsverðan afgang hjá ríkissjóði. Ég er mikill talsmaður þess að minnka skuldir ríkissjóðs, mér finnst það afskaplega mikilvægt. Mér finnst það siðferðislega vafasamt að ríkið skuldi. Ég geri mér grein fyrir því að það er miklu lengri umræða en við tökum í andsvörum og ég veit alveg að það eru málefnaleg rök gegn þeirri afstöðu. Ég er samt þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að skulda og lít á það sem mjög stóran vanda hvað ríkið skuldar mikið. Þetta er mantra sem maður þarf oft að segja við fólk þegar það fer að kvarta undan því að það vanti einhvers staðar einhverja þjónustu eða að einhver þjónusta sé einhvern veginn ekki í lagi og þá kemur alltaf upp þetta vandamál, ég leyfi mér að segja alltaf: skortur á peningum.

Núna sjáum við fram á að ríkissjóður skili afgangi eins og var fyrirséð ef maður hefði fylgt grafinu, hvort sem það hefðu orðið ríkisstjórnarskipti eða ekki, en þá er erfiðara að segja að það vanti peninga. Þá langar mig að nefna sérstaklega almannatryggingakerfið. Ég er þeirrar skoðunar að stærsti vandinn á almannatryggingakerfi sé hversu flókið það er fyrir skjólstæðinga, notendur, stjórnmálamenn, starfsfólk Tryggingastofnunar og starfsfólk víða í kerfinu og hjá sveitarfélögunum, en að sama skapi ef maður lítur á tölur í öðrum málaflokkum, eins og útlendingamálum, fangelsismálum og persónuvernd, er þar oft ofboðslega mikil fjárþörf en samt bara upp á kannski tugi eða hundruð milljóna, ekki heilu milljarðana eins og við erum að tala um hérna.

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki ætti að nýta þetta svigrúm til að reyna að laga þau vandamál þar sem þarf ekkert sérstaklega mikið fjármagn til að laga þó heilmikið. Ég fullyrði að það væri hægt að laga öll vandamál sem tengjast til dæmis fjárskorti í útlendingamálum með örfáum hundruðum milljónum króna. (Forseti hringir.) Það á að laga þau komplett.