144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Karl Garðarsson nefnir að honum fyndist gott verklag að málið yrði skoðað aftur. Ef kallað væri eftir því að málið færi aftur í nefndina væri það ekki það vitlausasta í heimi. Nú er ég áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og hef ekki sjálfur vald til þess að krefjast þess að mál fari í nefnd þannig að ég spyr þingmanninn hvort hann sé tilbúinn að senda fjárlaganefnd formlega erindi eða beiðni um að málið verði kallað aftur til nefndar. Það er náttúrlega í kjölfar alls sem við erum búin að nefna hérna. Þetta mál virðist ekkert vera sérstaklega vel unnið. Það er gert með hangandi hendi. Maður hefur heyrt á stjórnarliðum að það sé verið að prófa, þetta sé fyrsta skiptið o.s.frv., en þetta er ríkisfjármálaáætlun og í rauninni er þingið að segja að stjórnvöld skuli starfa á grundvelli þeirra forsendna sem eru í þessu skjali. Samt sem áður eru þessar forsendur ekkert sérstaklega vel unnar. Þar er (Forseti hringir.) fullt af álitamálum. Ég spyr þingmanninn hvort hann sé tilbúinn að kalla formlega eftir að málið verði tekið inn í nefnd.