144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Samkvæmt þessari tillögu og í samræmi við ákvæði þingskapa á að vera hér á ferðinni mörkun stefnu sem framkvæmdarvaldið á síðan að fylgja eftir í framkvæmd. Menn hafa velt upp þeim breyttu forsendum og aðstæðum sem augljósar eru í málinu og meira að segja stjórnarliðar hafa viðurkennt í bland eins og hv. þm. Karl Garðarsson sem opnaði að minnsta kosti á að það kynni að vera athugunarinnar virði að fjárlaganefnd tæki málið aftur til sín. Það er galli að við höfum ekkert séð af hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni og sömuleiðis hefur lítið farið fyrir forustu fjárlaganefndar. Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, er erlendis í leyfi og varamaður fyrir hennar hönd og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur sést hér af og til. Við höfum ekki fengið mikil viðbrögð eða svör við þeim að mínu mati réttmætu ábendingum sem hér hafa komið fram (Forseti hringir.) um að það væri að minnsta kosti skynsamlegt að kalla málið inn í nefnd, ef ekki bara kalla tillöguna aftur. Svo bendi ég á að næst á eftir þessu eru á dagskrá ágætismál frá efnahags- og viðskiptanefnd sem væri alveg upplagt að fara að snúa sér að.