144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar þetta stendur með skatt á eldsneyti og það allt saman. Ég hef ekki heyrt af því og með virðisaukaskattskerfið varð ágæt niðurstaða í nefndinni þegar síðasta rimma var tekin um umdeildar breytingar á virðisaukaskattsþrep, að það ætti að hafa tímann fyrir sér í því og fara í það að rýna alls konar hugmyndir um til dæmis eitt virðisaukaskattskerfi og að nefndin fengi að vera með í þeirri vinnu sem hefur verið kynnt sem samráðsferli sem fer fram í ráðuneytinu um endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu.

Ég er út af fyrir sig sammála mörgum markmiðum sem þar hafa verið sett fram, að virðisaukaskattskerfið eigi fyrst og fremst að vera tekjuöflunarkerfi en ekki tekjujöfnunarkerfi og að tekjuskattskerfið sé meira til tekjujöfnunar, en það er skemmst frá því að segja að við í nefndinni höfum ekkert heyrt af þessari vinnu. Maður er bara algjörlega í þoku með það hvert stefnt er.

Með tryggingagjaldið finnst mér svolítið áhugavert. Mér finnst mjög merkilegt að ríkisstjórnin hafi ekki farið í að lækka tryggingagjaldið eftir að það þurfti að hækka það mjög snarpt út af auknu atvinnuleysi í kjölfar hrunsins. Tryggingagjaldið hefur hins vegar ekki lækkað með lækkandi atvinnuleysi og ríkisstjórnin hefur sem sagt ákveðið að nýta tryggingagjaldið til annarrar tekjuöflunar en í raun var samið um. Það á meðal annars að renna í Atvinnuleysistryggingasjóð og aðra umsamda þætti. Mér finnst þetta birtast þannig að síðan kemur ástand á vinnumarkaði og þá er það í rauninni vinnumarkaðurinn sem skilgreinir hvaða skattkerfisbreytingar á að gera. (Forseti hringir.) Þær kunna að mínu viti ekkert endilega að vera jafn skynsamlegar og lækkun tryggingagjaldsins hefði verið þannig að ég held að við séum bara að upplifa svolítið tilviljunarkennda stefnu í skattamálum, stefnuleysi.