144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála. Mér finnst mjög skrýtið að efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki neitt fengið þessa ríkisfjármálaáætlun inn á sitt borð. Ég held að menn telji kannski að ríkisfjármálaáætlunin eigi að vera rammi utan um ríkisfjármál á komandi árum og vera einhvers konar stoðplagg með fjárlögunum, þótt ekki væri nema stóra myndin, þó í talsvert meiri smáatriðum en hér er birt. Ég hefði haldið að sú vinna sem hefur farið fram á þessum tímapunkti í fjármálaráðuneytinu, um það hvernig stóru línurnar eru í fjárlögum komandi ára, ætti að vera í þessu plaggi um ríkisfjármálaáætlunina og það væri þá röksemd með því að málið færi til fjárlaganefndar.

Hins vegar ræðir efnahags- og viðskiptanefnd hagspár að öðru leyti, þjóðhagsspár og svoleiðis hluti. Þetta er eiginlega ekkert annað en það en ég held að sé það svolítill misskilningur á því hvernig plagg þetta á að vera.

Svo finnst mér einmitt gríðarlega aðkallandi að ræða hvernig á að höndla þá peninga sem munu í kjölfar samninga við kröfuhafana fara inn í Seðlabankann. Menn verða að skilja að það eru mjög sterkar hagfræðilegar röksemdir fyrir því að einfaldlega tæta þessa peninga, eyða þeim. Það eru mjög sterkar röksemdir vegna þess að þetta eru í raun og veru sömu peningar og settu allt á hliðina 2005. Þeir geta gert það aftur, við erum að ná aftur heim því mikla peningamagni sem fór í umferð þá, með kannski talsverðri einföldun.

Mér finnst skynsamlegar röksemdir þar sem því er haldið fram að (Forseti hringir.) þetta sé hægt að nota til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er samt ekki einfalt heldur. Það þarf að gera samkvæmt einhverri áætlun. Menn geta ekki greitt niður erlendar skuldir í einu vetfangi, það hefur áhrif á gengið bara svo ég nefni augljóst dæmi, þannig að menn þurfa að ræða þetta. Af hverju eru menn ekki að ræða það í ríkisfjármálaáætlun?