144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er auðvitað alveg ljóst að forsendur fjárlaga sem hv. þm Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, nefndi hér hafa breyst. Fjárlagafrumvarpið hlýtur að þurfa að taka breytingum eða vera að gera það þessa dagana. Það koma fjáraukalög á þessu ári sem verða talsverð að umfangi, spái ég. Ríkisstjórnin er þegar búin að ákveða þó nokkrar aukafjárveitingar og hún verður væntanlega að mæta, ef hún einhvern tímann semur við opinbera starfsmenn, umtalsverðum launahækkunum og þarf fjárheimildir til þess. Kannski má skipta pottinum að einhverju leyti en ég tel yfirgnæfandi líkur á því að fjáraukalög strax á þessu ári og svo forsendur fjárlaga næsta árs verði verulega breyttar frá því sem menn héldu þegar þeir suðu saman þessa tillögu í febrúar, mars í fjármálaráðuneytinu.

Þetta er veruleiki sem blasir við okkur og á ekkert að vera vandræðalegt að viðurkenna. Hann er svona. Það er ekki gagnrýni á hæstv. fjármálaráðherra eða þess vegna meiri hluta fjárlaganefndar þó að menn ræði þetta, þetta er bara veruleikinn, þetta er staðan. Af hverju sýna menn þá ekki með einhverjum hætti að þeir séu þess meðvitaðir? Ég tel reyndar að breytingarnar séu miklu stærri, ég tel að verkefnin sem blasa við í hagstjórn á Íslandi næstu missirin hafi tekið grundvallarbreytingum undanfarna mánuði í viðbót við það sem greiningaraðilar töluðu áður um, að slakinn væri í grófum dráttum búinn í þjóðarbúskapnum og þetta væri að fara úr slaka yfir í spennu. Svo stórir hlutir hafa gerst að hagstjórnarverkefnið fram undan er allt annað. Þeim mun mikilvægara er að menn leggi traustan grunn að þessu. Þeim mun verri er þessi ríkisfjármálaáætlun því að hún veitir ekkert aðhald, hún veitir engan stuðning við það verkefni Seðlabankans að halda aftur af verðbólgu og frekar bremsa eða kæla hagkerfið en hitt ef það er í uppsveiflugírnum.

Þetta hefði allt saman þurft að ræða. Ef þingið klárast á næstu dögum og menn telja ekki tíma til þess, gott og vel, (Forseti hringir.) þá á að kippa þessari tillögu til baka og viðurkenna að nýtt mat á þessu komi í fylgihefti fjárlagafrumvarpsins í haust.