144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hallast að því líka að horfast í augu við það að þessi tilraun til að fara eftir lögum og kynna ríkisfjármálaáætlun sem stuðningsgagn við fjárlögin að vori hafi mistekist. Þetta mistókst en það var um að gera að reyna.

Svo má velta fyrir sér af hverju þetta hafi mistekist. Mér finnst mjög gagnrýnisvert hvernig fjárlögin hafa verið unnin hér á landi um væntanlega áratugaskeið, ég veit það ekki. Ég er bara þingmaður og það er alltaf annan dag þings að hausti sem maður fær eitthvað að sjá á spilin, fær að sjá hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út og hvernig þessar stærðir eru. Það er jafnvel ekki þá, í fjárlagafrumvarpinu, sem ríkisstjórnin segir hvernig þetta verður endanlega. Svo fer í gang einhver póker í þinginu sem endar í endanlegum fjárlögum. Ég tel að hugmyndin um að kynna bitastæða ríkisfjármálaáætlun að vori sé tilraun til að komast út úr þessu, reyna að hafa þingið meira með og hafa línurnar skýrar þannig að menn fái þetta ekki allt í andlitið á öðrum degi þings. Því miður hefur það ekki tekist og það er eiginlega súrrealískt hvað það hefur tekist illa í raun og veru þegar maður lítur yfir sviðið núna. Ég meina, það eru gjörbeyttar forsendur á undanförnum mánuðum með kjarasamningum, afnámi hafta og boðuðum tillögum í húsnæðismálum sem maður veit ekki hvort verða að veruleika eða ekki (Forseti hringir.) og þar fram eftir götunum. Þetta er æðiþýðingarlítið.