144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir þetta. Ég var hér í salnum í gær þegar við kölluðum eftir því að ríkisfjármálaáætlun, sem nú er á dagskrá, yrði vísað til nefndar. Við teljum að hún sé orðin það götótt að í raun verði aldrei fræðilegur möguleiki að fylgja henni. Eftir þær vendingar sem orðið hafa, í tengslum við haftafrumvörpin og líka í tengslum við kjarasamninga, er ekki hægt að fylgja þessari ríkisfjármálaáætlun. Við höfum boðist til þess að nefndin taki hana aftur til umfjöllunar og menn reyni að fylla í götin sem á henni eru.

Á sama tíma var okkur sagt hér í gær að boðað yrði til fundar með forustumönnum allra stjórnmálaflokka í dag og að farið yrði yfir stóru myndina á stöðu mála hér. Við tókum það gott og gilt en svo bólar ekkert á neinum slíkum fundi. Mér finnst við þurfa að fá einhver svör um það hvernig menn ætla að halda hér áfram með þingstörfin. Það þarf að minnsta kosti að tilkynna hvenær fundurinn, sem tilkynnt var að yrði boðaður úr stóli forseta í gær, verður haldinn.