144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur taka undir hvatningu til forseta um að kanna málin og koma til okkar upplýsingum um það hvað boðuðum eða ekki boðuðum fundi með formönnum flokkanna líður.

Ég vil líka nota tækifærið til að þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að skýra það út fyrir okkur hvaða þingsköp gilda um það hvernig hægt er að vísa málum aftur til nefndar. Mér finnst mjög nauðsynlegt að annaðhvort hæstv. forseti eða meiri hluti nefndarinnar kalli eftir málinu aftur til þess að gera framhaldsnefndarálit svo að þau tíðindi sem orðið hafa síðan í gær verði að minnsta kosti orðuð í þingskjali. Ég tel hins vegar ekki nauðsynlegt að fresta fundi meðan það á sér stað. Við getum tekið næsta mál, sem er tekjuskattur, á dagskrá og haldið þingstörfum áfram meðan nefndin er að klára sína vinnu.