144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram beiðni um að þetta mál verði tekið af dagskrá einfaldlega vegna þess að það er eiginlega ónýtt ef við getum orðað það þannig. Bæði er það vegna þess að margt af því sem er í ríkisfjármálaáætluninni hefur komið stjórnarliðinu mjög á óvart; ég hef áður bent á að ég held að stjórnarliðar hafi ekki gert sér grein fyrir því að það væri stefnumótun þessarar ríkisstjórnar til fjögurra ára að hækka laun lífeyrisþega helmingi minna en annarra ríkisstarfsmanna.

Verið er að leggja fram stórt frumvarp um húsnæðisbætur og það skiptir mjög miklu máli að það verði klárað. En það sem er að gerast hér í þinginu — og ég held að það væri heiðarlegast ef menn viðurkenndu það bara og gerðu þess vegna hlé á fundi — er að obbinn af þeim málum sem standa föst í afgreiðslu eru föst vegna ágreinings á milli stjórnarflokkanna. Það er ekki vegna ágreinings við stjórnarandstöðuna, það er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna. Menn verða þá bara að taka sér þann tíma sem þeir þurfa til að útkljá þau þannig að þeir viti sjálfir hverju þeir ætla að koma í gegn á þessu þingi.