144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og öðrum þingmönnum sem óskað hafa eftir því að þetta mál verði tekið á dagskrá því að allar forsendur, sem lagt er upp með, eru algerlega brostnar.

Ég hef aldrei velt því fyrir mér hvernig forseti kallar formenn stjórnmálaflokka til fundar. Ég hafði einhvern veginn ímyndað mér að forseti, sem nýtur mikillar virðingar sem æðsti yfirmaður löggjafarsamkundunnar, léti formennina vita að halda þyrfti fund og svo „settlaðist“ þetta einhvern veginn.

Nú virðist vera sem svo að formennirnir tveir, stjórnarþingmennirnir, virði ekki óskir forseta. Ég vil því fara fram á að hæstv. forseti hafi samband við ráðuneyti þeirra ágætu manna, fái dagskrána þeirra og boði þá á tíma sem allra fyrst þegar þeir báðir eru lausir. Ég geri ráð fyrir að það hljóti að vera einhvern tíma í dag. Ekki vinna þeir allan sólarhringinn, það gengur ekki svo undan þeim; að forseti fari í það mál af festu að boða þá á sinn fund.