144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkrir hlutir sem vefjast fyrir mér í þessari ríkisfjármálaáætlun og ég tel að hún hafi verið mjög hressilega götótt áður en nýir kjarasamningar voru gerðir. Við vitum ekki enn þá hvað verður ef við tökum með þá óvissu sem ógerðir kjarasamningar við opinbera starfsmenn eru í og síðan aftur þetta með áhrif haftafrumvarpanna. Fyrir þann tíma taldi ég þó að væri veruleg óvissa og verulega mikil göt í þessari þingsályktunartillögu eins og dregið er ágætlega fram í minnihlutaáliti.

Það er eitt sérstaklega sem angrar mig í þessu öllu saman og það er að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ákveðið að samþykkja málið óbreytt, sérstaklega í ljósi þess að hér stemma tölur og fullyrðingar ekki alveg þar sem gert er ráð fyrir aukningu upp á um það bil 2% í kaupmætti opinberra starfsmanna, þ.e. 1% umfram verðlag, það er talað um 1% í almannatryggingakerfinu umfram verðlag, það er gert ráð fyrir að verðlagshækkanir séu á bilinu 2,5–2,7% og síðan er gert ráð fyrir því að almenn útgjaldaaukning verði um 1% á liðunum og svo er gerð aðhaldskrafa upp á 1%.

Þetta allt er lagt saman er töluvert miklu meira en þessi 1,2% sem verður í útgjöldum á milli áranna 2016 og 2017 eins og fram kemur í þessari þingsályktunartillögu. Mér þykir afar bagalegt að hér eigi að samþykkja ríkisfjármálaáætlun án þess að svara þessari stóru spurningu: Hvernig ætla menn að ná upp í það að uppfylla áðurnefndar hækkanir og síðan aftur (Forseti hringir.) að eingöngu verði aukning upp á 1,2% milli ára? Hlýtur það ekki að þýða að menn ætli að skera hressilega niður í ríkisútgjöldum á þessu árabili?