144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það þýðir akkúrat það. Það er kannski það sem við þurfum að fá útskýringar á. Ég innti formann fjárlaganefndar eftir því hvort henni þætti ábyrgt að leggja fram álitið með þeim hætti sem hér er gert. Ég harma það mjög að varaformaður fjárlaganefndar ýtir sér alltaf aftar á mælendaskrána í staðinn fyrir að koma hingað og gera grein fyrir því hvort hann telji skynsamlegt að taka áætlunina inn núna og til umræðu í nefndinni, fá á henni skýringar eins og við höfum óskað eftir, til að uppfæra þó ekki sé nema nefndarálitið þannig að það komi skýrt fram að við vitum um áhrifin af þessum breytingum.

Ég skil satt best að segja ekki alveg þetta nefndarálit, það er bara beint upp úr frumvarpinu. Það er engin sjálfstæð skoðun í því af hálfu nefndarinnar eða eitthvað lagt til. Það liggur fyrir að enn meira á eftir að koma inn varðandi launin því að við erum ekki búin að semja við okkar starfsmenn, ríkisstarfsmenn. Það er ljóst að ekki dugar það sem búið er að bjóða þannig að þessar forsendur allar saman halda ekki. Auk þess minntist þingmaðurinn á almannatryggingarnar, hér er auðvitað farið á svig við lögin að okkar mati. Hér er talað um 1% í staðinn fyrir að bætur fylgi verðlagi eins og lög gera ráð fyrir þannig að ég held að það sé ekki skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti. Það væri hæstv. fjármálaráðherra til framdráttar ef hann segði bara sisvona: Ókei, þetta var tilraun en nú stöndum við frammi fyrir breytingum áður en við samþykkjum þetta þannig að við höfum færi á að gera breytingar í staðinn fyrir að þetta sé plagg sem tekur ekki utan um nokkurn skapaðan hlut og styður ekki við neitt.