144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hv. þingmaður lengri þingreynslu en ég og er fastamaður í fjárlaganefnd þar sem ég er áheyrnarfulltrúi. Ég hef verið að fylgjast með því hvernig fundum hefur verið háttað um þetta mál og hvernig ferli þess var þegar það kom inn í þingið.

Það kom inn í þingið 1. apríl eins og 6. mgr. 25. gr. þingskapa kveður á um, um það að ráðherra eigi að leggja þetta fyrir þingið. Þar kemur líka fram að sú nefnd sem fær málið, fjárlaganefnd, geti meðal annars vísað málinu til annarra nefna eða fengið umsagnir annarra nefnd sem sérstaklega er tekið til. Ég spyr þingmanninn hvort það sé rétt að það hafi ekki verið gert.

Ég fylgdi þessu máli ekki eftir í nefndinni þar sem ég hef áheyrn. Málið kom inn 1. apríl en það er ekki fyrr en 13. apríl sem málið er fyrst tekið á dagskrá og fengnir gestir úr fjármálaráðuneyti. Mánuði síðar er málið á endanum afgreitt af nefndinni án þess að meiri hlutinn hafi viljað gera nokkrar breytingar á því. Málsmeðferðin er vægast sagt óeðlileg. Þegar mál koma til nefnda er vanalega skipaður fyrir því framsögumaður og málið sett í ferli, hvernig vinna skuli málið í nefndinni. Meðal annars er það sett í umsagnarferli eins fljótt og auðið er, en þarna er málið ekki einu sinni tekið til umræðu fyrr en 13 dögum síðar, næstum tveim vikum síðar. Svo var fundur með gestum 15. apríl og það voru einu gestirnir sem komu fyrir nefndina. Það er rétt hjá mér, það voru bara Ríkisendurskoðun og Hagstofa Íslands. Svo var ekki aftur fundur fyrr en 6. maí þegar Íbúðalánasjóður mætti fyrir nefndina og fjallaði um eftirlit með B- og E-hluta fyrirtækjum en seinna á þeim fundi var ríkisfjármálaáætlun rædd. Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) sem er einn af stóru óvissuþáttunum við þetta allt saman var ekki kallaður fyrir nefndina að þessu leyti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þessa málsmeðferð sem er vægast sagt óeðlileg.