144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnast það mikil og góð tíðindi ef rétt er að hæstv. fjármálaráðherra ætli að hitta hv. fjárlaganefnd í fyrramálið. Ég mundi mjög gjarnan vilja fá staðfest af hálfu hæstv. forseta að svo sé. Líkt og ítrekað hefur verið bent á, bæði í umræðunni sem og undir liðnum fundarstjórn forseta, er þetta síðari umr., þ.e. síðasta umræðan um þetta mál. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli ef hæstv. fjármálaráðherra ætlar að funda um málið með nefndinni á morgun að hlé verði gert á þessum dagskrárlið, málið verði nú þegar tekið út af dagskrá til að það verði eitthvað til að ræða um á fundinum á morgun. Það er ekki þar með sagt að það eigi að stoppa þennan fund. Það er hægt að taka til við næsta mál.