144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ítreka beiðni mína til forseta, sem fleiri hafa nú borið fram hér undir þessum lið, um að ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 verði tekin af dagskrá í bili og þangað til fundur í fjárlaganefnd með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er búinn í fyrramálið. Síðan getum við þá tekið áfram til við að ræða hana og niðurstöðu þess fundar.

Síðan tek ég undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, formanns þingflokks Vinstri grænna, það var algjörlega skilningurinn á þeim þingflokksformannafundi sem haldinn var í gær að þetta héngi saman, dagskrá morgundagsins og að í dag yrði haldinn fundur formanna þingflokkanna til að greiða fyrir (Forseti hringir.) og sortera ágreiningsmál í burtu þannig að við gætum lokið hér þingstörfum.