144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka svörin og hef fullan skilning á svörum forseta eða því sem er að finna í þeim. Ég verð þó að segja að mér er fullkomlega misboðið. Mér er svo misboðið af því að ég er búin að bíða í þinghúsinu í allan dag eftir því að það komi boð um að formenn flokkanna hittist. Miðað við þann sáttatón og þann vilja til að koma málinu á dagskrá á morgun finnst mér við fullkomlega hunsuð. Ég hef ekki fengið eitt einasta símtal frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Ég hef ekki fengið eitt einasta símtal frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég hef ekki fengið eitt einasta símtal frá forseta Alþingis eða tölvupóst eða SMS og það sem ég upplifi hér er ekki til þess fallið að maður hafi áhuga á að greiða leið fyrir einhverju máli með allt hitt hangandi yfir sér. Þetta er ekki boðlegt, forseti.