144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ber þá von í brjósti að það boði góð tíðindi að ég sá varaformann fjárlaganefndar hvísla að forseta, að hér séum við að fara að leggja þetta mál til hliðar í bili og taka fyrir önnur mál eða fresta fundi þangað til formannafundur hefur verið haldinn. Það er lágmark í ljósi þess að hann hefur ekki verið boðaður og framkoman auðvitað ekki þinginu til sóma eða þeim sem því stýra að vera ekki búið að boða fund sem sagt var í gær að yrði boðaður síðdegis. Síðdegið er löngu komið svo fundarboðið hefði í það minnsta átt að vera komið. Það væri vert að gera þótt ekki væri nema stutt hlé til að raka þessu saman og vita hvort fólk komist ekki að einhverri niðurstöðu um framhald dagskrárinnar, hvort sem henni vindur fram í kvöld eða verður látið gott heita í dag.

Ég er til í að halda áfram að ræða mál en ég mundi vilja ræða þá næstu mál á dagskrá en ekki það sem hér er undir í ljósi þess að fundur hefur verið boðaður í fjárlaganefnd í fyrramálið með ráðherra.