144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var búinn að lofa hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni að fara í andsvar af því hann ætlaði að beina til mín spurningum, en síðan varð eitthvað minna úr því ef ég skil hv. þingmann rétt. (Gripið fram í.) — Já, já, ég get svo sem alveg svarað sömu spurningum og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson gerði.

Eins og hér hefur komið fram þá er þetta í fyrsta skipti sem plagg af þessu tagi er lagt fram. Það liggur þar af leiðandi fyrir að við erum að stíga fyrstu skrefin í þessu. Vonandi náum við samstöðu um að samþykkja frumvarp um opinber fjármál. Það þýðir að við þurfum þá strax, ef við samþykkjum það, að innleiða breytt verklag þannig að við sjáum þá bæði breytt vinnulag varðandi þessar áætlanir og annað slíkt.

Ég var í borgarstjórn Reykjavíkur þegar við hófum þessi vinnubrögð þar. Ég man ágætlega eftir þeirri umræðu, var þá í minni hluta. Við vorum alveg meðvituð um að menn voru ekki komnir á þann stað sem menn ætluðu þegar þeir settu þetta fram í fyrsta skipti. En mönnum þótti betra að fara af stað og ræða málin og þróa sig áfram í þessu. Það er algjörlega ljóst að málið verður ekki fullskapað í fyrsta skipti sem það er lagt fram.

Hæstv. ráðherra hefur sýnt mikinn liðleika. Sem formaður nefndarinnar var ég beðinn um það kl. 15.28 í dag að fá hann á nefndarfund í fyrramálið. Ég hafði strax samband við hann og ég held að það megi fullyrði að hæstv. ráðherra sé afskaplega liðlegur, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, við stjórnarandstöðuna, því að ég gat svarað því nokkrum mínútum síðar, kl. 15.57, að hann væri tilbúinn til að mæta á fund hv. nefndar. Ég fullyrði, eftir að hafa verið á þingi í nokkuð mörg ár, að það er ekki sjálfgefið að málin séu með þeim hætti.

Ég fer í ræðu hér á eftir til að fara í ýmis efnisatriði sem hér hafa komið fram, vonandi fæ ég tækifæri til þess hér á eftir. En það er algjörlega ljóst og hefur alltaf verið að þetta mál kemur ekki fullskapað fram strax, svo mikið er víst. Það er líka ljóst að náum við að samþykkja frumvarpið um opinber fjármál, sem ég vona, þá munum við þurfa að breyta þessu verklagi.