144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sitjandi formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir að bregðast mjög fljótt við beiðni um umræddan fund og ráðherra fyrir að bregðast við og koma á fundinn til að ræða málin.

Ef við klárum þessa umræðu í dag þá erum við að fara að ræða mál á fundinum á morgun sem búið er að afgreiða í þinginu. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sitjandi formann nefndarinnar, hvort honum þyki ekki í lagi að við frestum umræðu um þetta, tökum fyrir önnur mál, höldum áfram. Við höfum nóg af málum til að ræða. Við getum tekið málið upp jafnvel þegar nefndin er búin að ræða þetta og fá gesti á sinn fund, þar sem málið var ekki sent til umsagnar. Það er óeðlilegt og kannski sér í lagi þar sem verið er að vinna þetta svona í fyrsta skipti. Því ekki að gera það eins vel og hægt er og fá á fund nefndarinnar, eins og er heimilt, álit annarra nefnda eða greinargerðir; álit annarra nefnda í þinginu eins og minni hlutinn bað um? Hvers vegna var það ekki samþykkt? Ég spyr í ljósi þess að í lögum um þingsköp segir:

„Nefndin getur leitað umsagnar annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar eftir því sem hún ákveður hverju sinni og setur þá fresti til afgreiðslu umsagna annarra nefnda.“

Málið var hjá nefndinni í mánuð. Auðveldlega hefði verið hægt að óska eftir því, eins og minni hlutinn gerði — kannski veit hæstv. sitjandi formaður það ekki út af því að hann er varaformaður og var ekki alltaf þarna og stýrði ekki fundum, en þetta var ósk minni hlutans. Hvers vegna var það bara ekki gert? Veit hv. þingmaður, sitjandi formaður, hvers vegna ekki var brugðist við því? Það er sérstaklega kveðið á um það í lögum um þingsköp og því mjög óeðlilegt að verða ekki við því.

Í öðru lagi spyr ég: Hvers vegna var þetta ekki bara sent til umsagnar og þá sér í lagi til þeirra aðila sem hefðu getað gefið okkur skýrari mynd til að setja í nefndarálit um þessa óvissuþætti?