144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að það er gott að fara af stað með einhverja vinnu til þess að fá einhvers konar prótótýpu, það er ágætisferli. Samt sem áður er málið þannig vaxið að Alþingi er að álykta um að ríkisstjórnin skuli fylgja ákveðinni stefnu á grundvelli sem síðan er ekki til staðar.

Að sjálfsögðu er betra að fara af stað með þetta, út af því að kveðið er á um það í lögum að það skuli gert, frekar en að gera ekki neitt. En það er ekkert sem hefði stöðvað fjárlaganefnd í því að senda málið til umsagnar. Það er eðlilegt ferli en það var ekki gert. Það er það sem er svo ofboðslega óeðlilegt.

Nefndarmenn hafa kannski hugsað sem svo: Jú, við erum bara að prófa þetta og við ætlum þá kannski ekkert að vera að eyða miklum tíma í gestafundi o.s.frv. Þetta er bara prufukeyrsla á málinu, það á kannski ekki að taka of mikinn tíma. En samt sem áður hefði verið hægt að senda málið til umsagnar. Það kostar engan tíma. Það er mjög athyglisvert að það hafi ekki verið gert.