144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann samt sem áður þannig að honum finnist mikilvægt að hlúa að störfum sem skila góðum virðisauka svo að þau fari ekki úr landi. Ef þau fyrirtæki segja að vandamálið sé gjaldmiðillinn verða stjórnvöld auðvitað að horfa á það vandamál.

Hv. þingmaður talaði um ferðaþjónustuna, að hún hefði vaxið og dafnað. Það hefur sannarlega skilað okkur gjaldeyri. En ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann segi um þá skoðun sumra hagfræðinga að ekki sé gott að hafa ferðaþjónustuna sem eina af meginstoðum atvinnulífsins og að margt bendi til þess að virðisaukaskattur á gistingu, sem nú er sá sami og almenningur greiðir fyrir matvæli, sé of ívilnandi fyrir grein sem er orðin svona stór.