144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn sem eru í viðskiptalífinu eru oft mjög ákveðnir í skoðunum sínum á stjórnmálum og ég hlusta eftir því sem þeir segja. Ekki er þar með sagt að ég taki allt það sem þeir segja og telji það rétt, enda hafa þeir mjög mismunandi skoðanir og það er vel.

Hv. þingmaður nefnir hátæknina og annað slíkt, ég skildi hv. þingmann þannig, og eitt af því sem er mikilvægt, sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt áherslu á, er að við bætum innviðina þegar kemur að upplýsingatækninni og það út um allt land. Það tengist að vísu ekki bara slíkri nýsköpun, heldur líka ferðaþjónustunni.

Ég vísaði bara í röksemdir hv. þingmanns í viðtalinu í Viðskiptablaðinu, sem ég nefndi í ræðu minni áðan. Það sem hv. þingmaður sagði um virðisaukaskattskerfið, ég er bara sammála því. Í ferðaþjónustunni erum við með allt of mörg þrep, það er óskynsamlegt. Það á við í fleiri atvinnugreinum. Ég mundi vilja sjá að við værum að lækka hæsta þrepið og fækka undanþágunum og minnka bilið á milli. Það er sú sýn sem ég hef á þetta.