144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[19:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum mjög greinargóða ræðu um mál sem er nokkuð umfangsmikið og ekki mjög aðgengilegt fyrir okkur sem höfum ekki verið að fjalla um það í efnahags- og viðskiptanefnd. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í skjölunarskylduna. Í greinargerð með frumvarpinu, um 3. gr., segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er lagt til að tilvísanir til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu verði felldar brott. Þá er einnig lagt til að lögaðilar teljist ekki lengur tengdir í skilningi ákvæðisins vegna eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar. Engu að síður þarf verðlagning í viðskiptum aðila, sem hefðu getað fallið undir ákvæðið, ávallt að vera í samræmi við armslengdarsjónarmið, sbr. almennar reglur 1. og 2. gr. 57. gr. tekjuskattslaga.“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er verið að breyta skilgreiningunni á tengdum aðilum? Fyrir okkur sem munum ýmsar umræður í kringum tengda aðila og skilgreiningar á þeim er það frekar óþægilegt að verið sé að rýmka þessar reglur. Ég vil bara vita hvort ástæða sé til að vera á varðbergi. Ég spyr um skoðun þingmannsins á því hvað hann telji að hangi þarna á spýtunni.