144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi milliverðlagningarreglurnar og tilvísunina í OECD þá hef ég nú þegar ítarlega gert grein fyrir því í ræðu minni að við teljum okkur einfaldlega ekki hafa heyrt sannfærandi rök fyrir því að fella þetta út. Ég hef aldrei heyrt talað um vandamál í því sambandi að tilvísunin væri í lögum og þess vegna skil ég ekki hvers vegna það er gert, átta mig ekki alveg á því. Ef einhver kann einhver rök fyrir því að fella þetta út þá vildi ég gjarnan heyra þau. Ég man ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann fengið þau í nefndinni, eiginlega bara rökin „af því bara“.

Varðandi þetta með tengslin og tengda aðila og skjölunarskylduna þá er þetta í raun tvíþætt og annars vegar er það spurningin um að skilgreina tengslin. Ég verð bara að játa að ég man kannski ekki alveg, nema fá næði til að rifja það aðeins upp, hvaða breytingar við vorum nákvæmlega að gera á þessu eðli tengslanna. Ég hélt það væri nú ekki það að ákveða að allir slíkir aðilar væru ótengdir, heldur að breyta aðeins skilgreiningunni, því að það er auðvitað annað vandamálið.

Hvar dregurðu mörkin, hvað skulu teljast tengdir aðilar? Það þarf ekkert að efast um það að ef eignatengslin eru svo sterk að um er að ræða samstæðu þá eru aðilar tengdir. Ef ráðandi hlutur í eignum eða atkvæðum er til staðar þá eru þeir tengdir. En það er orðið loðnara þegar kemur að því að svara spurningunni um hversu léttvæg eignatengsl eða stjórnunartengsl eða áhrif eins aðila, mögulega áhrif, á rekstur annars skulu flokkast sem tengsl í þessum skilningi skjölunarskyldunnar. Það er það sem var verið að glíma við þarna. Þá var hugsunin væntanlega sú að gera skjölunarskylduna ekki meira íþyngjandi en ástæða væri til, að ýta í burtu svona minni háttar tengslum.

Svo bara tekur allt málið grundvallarbreytingum þegar meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að flytja breytingartillöguna á þskj. 1040, fyrri tölulið, þar sem segir einfaldlega:

„Skjölunarskylda gildir ekki um viðskipti milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi.“

Punktur. Þá fellur öll skjölunarskyldan niður gagnvart innbyrðis viðskiptum ef þau fara einungis fram hér á landi, hversu tengdir sem aðilarnir eru.