144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru óneitanlega ákveðin vonbrigði, frú forseti, að efnt hafi verið til fundar formanna flokkanna og að umræður um þinglok hafi í raun ekkert þokast síðustu viku. Ég átti von á því — eftir að stjórnarandstaðan hafði ítrekað lýst sig tilbúna til að setjast niður við borðið, og í verki eins og sjá mátti á sunnudagskvöld þegar ekki stóð á stjórnarandstöðunni að ljúka hér mikilvægu máli tengdu afnámi hafta — að ríkisstjórnin hefði eitthvað fram að færa til að leggja á borðið um það hvernig við sjáum fyrir okkur að við ætlum að ljúka þingstörfum.

Nú liggur það fyrir, frú forseti, að ríkisstjórnin hefur enga slíka sýn þannig að málin eru enn algjörlega föst. Það eru gríðarleg vonbrigði, frú forseti, að ríkisstjórnin hyggist enn ætla að afgreiða öll sín mál, meira að segja mál sem eru enn ekki komin fram.

Frú forseti. Við erum komin tíu daga fram yfir starfsáætlun. Það er ekkert plan um það hvernig við ætlum að ljúka þinghaldi. Það er ekkert útspil frá meiri hlutanum hér í þinginu og það, frú forseti, eru gríðarleg vonbrigði. Svona er ekki hægt að halda áfram. Ég legg til að þessum þingfundi verði frestað þannig (Forseti hringir.) að formenn flokkanna séu þvingaðir til að setjast niður og ná einhverju samkomulagi um það hvernig við ætlum að ljúka þessu.