144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórnin skuli ekki hirða um að reyna að ákveða hver eru forgangsverkefnin. Við skildum við formenn stjórnarflokkanna í síðustu viku á fimmtudegi með því fororði að þeir ætluðu að setja það niður fyrir sér hvað þeir vildu klára af þeim 74 málum sem liggja fyrir þinginu. Það er ekki tími til að klára þau öll þó svo að við mundum funda fram á haust. Þeir verða að ákveða hvað þeir ætla að klára. Þeir komu tómhentir til fundar áðan.

Það er ósköp einfaldlega þannig að þingið er ekki tæki til þess að knýja stjórnarandstöðuna til að reyna að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann. Hæstv. þáverandi forseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, skapaði hér mjög flott fordæmi í lok síðasta kjörtímabils þegar hún neitaði að boða þingfundi vegna þess að stjórnarmeirihlutinn hafði enga sýn um það hvernig hann ætlaði að klára þingið. Það var bara ágætisfordæmi. Ég hlýt að kalla eftir því að forseti þingsins hætti að boða þingfundi. Það er algjörlega tilgangslaust meðan ríkisstjórnarmeirihlutinn er ekki tilbúinn að setja það niður fyrir sér hvað hann vill afgreiða.