144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekkert í þessari stöðu sem kemur á óvart. Áðan sátum við nokkur hér frammi, á meðan formenn voru að funda, og ég tala auðvitað bara fyrir sjálfan mig, en maður er eiginlega búinn að missa trúna á því að nokkur vilji sé til þess af hálfu annars stjórnarflokksins að reyna að hefja eitthvert þýðingarfullt samtal. Maður er farinn að upplifa uppákomur eins og þennan fund áðan sem einhvers konar grín, svona álíka og þessi listi með 74 málum, eins og verið sé að hæðast að þinginu og hæðast að hv. þingmönnum. Þannig er maður farinn að upplifa ástandið hér, virðulegi forseti.

Ég tek undir það. Þingið er stjórnlaust. Virðulegur forseti ætti að taka málin í eigin hendur, hætta að láta stjórnast af stjórnarherrunum tveimur. Sömuleiðis mætti hæstv. forsætisráðherra sérstaklega fara að koma sér hingað í hús, drattast hingað niðureftir og tala við okkur eins og fullorðinn maður.