144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Maður er býsna hugsi yfir því hvernig á því stendur að menn eru að kalla formenn þingflokka saman til að reyna að ljúka málum og ætlast alltaf til að hinn aðilinn komi með lausnina. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki hafa nokkra skoðun á því nema þá að þeir þurfi að fá þetta allt í gegn. Getur verið að það sé ástæðan fyrir því að ekki hefur náðst að gera kjarasamninga hjá opinberum starfsmönnum, að menn fari með sama hætti þar, leggi ekkert til, taki ekki þátt í umræðum, séu ekki með, bíði svo eftir að aðrir beygi sig undir þeirra vilja?

Þetta er illa sagt, en manni dettur þetta í hug. Menn sem koma á fundi og hafa ekkert til málanna að leggja eru ekki undir það búnir að ganga frá málum. Ég skora á hæstv. forseta að stoppa fundinn, bíða og skipa stjórnarflokkunum að komast að niðurstöðu. Við heyrum það hér á göngunum aftur og aftur, (Forseti hringir.) það er verið að hvísla í eyrun á okkur: Ekki láta þetta mál fara í gegn.