144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er stundum sagt að það sé gagnlegt í deilum að reyna að setja sig í spor andstæðingsins og skilja hann. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað ríkisstjórninni gangi til, hvernig hún hugsi sína stöðu í þessu sambandi.

Á sunnudaginn og sunnudagskvöldið brást stjórnarandstaðan vel við og afgreiddi með flýti mikilvægt mál til að greiða fyrir frekara framhaldi um afnám gjaldeyrishafta. Á morgun stendur til að ræða tvö risavaxin mál eftir stysta mögulegan fyrirvara, eftir að þau hafa legið hér tvær nætur, um afnám hafta. Úti í þjóðfélaginu er vaxandi umræða um að kannski verði gripið inn í kjaradeilur með lögum. Ætlast ríkisstjórnin til þess að þingið rúlli því í gegn o.s.frv.?

Hvernig upplifir ríkisstjórnin það, telur hún að hún þurfi á samkomulagi og samstarfi að halda eða er það öfugt? Stendur ríkisstjórnin í þeirri meiningu að það séum við sem þurfum að leggjast í duftið frammi fyrir henni og grátbiðja hana um eitthvert samkomulag?

Ég bara skil þetta ekki. Það er svo morgunljóst hverjum manni sem einhverja lágmarksreynslu hefur af pólitík að (Forseti hringir.) það er ríkisstjórnin sem á allt undir því að hér takist eitthvert lágmarkssamkomulag þannig að hún fái þá að minnsta kosti eitthvað afgreitt.