144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er með ósköp einfalda spurningu: Hvernig stendur á því að menn virðast markvisst vera að lengja þinghaldið? Halda menn að þetta fyrirkomulag, að láta menn tala hér út í eitt, sé til þess að stytta þinghaldið? Eða gera okkar vinnu hér markvissari? Það er svo augljóst öllum sem með þessari umræðu fylgjast að þetta hefur gagnverkandi áhrif.

Hvað er það sem við erum að reyna að gera, stjórnarandstaðan? Við erum að reyna að ná samkomulagi um nokkur mjög umdeild mál hér í þinginu. Það vita allir hver þau eru. Við óskum eftir að settar séu fram raunhæfar tillögur sem gætu orðið til þess að við ljúkum þinghaldinu hér í sumar. Og við erum tilbúin að setjast niður yfir slíkar lausnir.

Hæstv. forseti, ég spyr: Hvað veldur því að stjórn þingsins tekur þátt í þessu ráðslagi?