144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason komi hér algjörlega gáttaður í stólinn. Hann er þaulvanur sveitarstjórnarmaður að norðan, kann tökin á samstarfi og samvinnu og hefur aldrei á ævi sinni áður séð svona vinnubrögð. Þingmenn hlæja. Ég get ekki annað en fundið til með honum.

Ég veit að hann er orator og hefur sannfæringarkraft mikinn. Það höfum við séð sem höfum fylgst með honum á skjótu flugi um þingsalina hér á missirum fyrri. Ég skora á þennan væna framsóknarmann að norðan að beita áhrifum sínum á forustu Framsóknarflokksins til að taka í þá hönd sátta og samvinnu, sem við sáum útrétta hér rétt áðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, og reyna að leiða þetta mál í jörð. Það hefur hv. þingmanni margoft tekist fyrir norðan og nú bíðum við eftir því að hann sýni okkur líka sína magísku krafta hér á hinu háa Alþingi.