144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[20:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég held að hv. þingmaður að norðan ætti að leggja sitt af mörkum til að leysa þær deilur sem virðast vera í ansi miklum hnút. Það er alveg morgunljóst að það hefur skilað ákveðnum árangri, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á, að þegar mál eru rædd til hlítar sem mörgum finnst vera málþóf kemur ýmislegt í ljós, m.a. eins og gerðist með málið á undan þessu sem er aftur komið til nefndar eða öllu heldur er búið að fresta umræðunni og á að ræða það í fyrramálið í fjárlaganefnd með ráðherra. Það er vel og það er til þess að bæta málið. Nákvæmlega það sama á við um mörg önnur mál sem voru tilnefnd áðan. Þegar fólk heldur að hér sé í rauninni enginn annar tilgangur undir en að vera með einhver almenn leiðindi er það bara ekki rétt. Það er auðvitað fyrst og fremst til að ná fram einhverjum markmiðum. Hvað sem fólki finnst um það eru bara þingsköpin með þessum hætti, þetta eru þau ráð sem við höfum til að framkvæma þessa hluti.

Ef það er einlægur vilji til að breyta þessu og hafa þingsköpin einhvern veginn öðruvísi verður fólk að funda í þingskapanefnd og það hefur ekki verið gert ansi lengi. Ég held að það séu einhverjir mánuðir sem líða á milli funda og lítið gerist á þeim. Það er þá ekki meiri vilji en svo hjá ríkisstjórninni og fulltrúum hennar til að lagfæra þessi þingsköp þannig að ásýnd þingsins verði með einhverjum öðrum hætti en hún er og fólki finnst ekki gott. Ég held að það sé bara hið besta mál að kalla saman þingskapanefnd ef fólki finnst það.

Ég held að engum leynist að við í stjórnarandstöðunni erum ekki orðin neitt sérstaklega þreytt hér, við getum alveg talað um þessi málefni en við kjósum auðvitað að málum verði lent einhvern veginn. Það er betra fyrir þau mál sem undir eru, það er líka betra fyrir ríkisstjórnina og enn fremur fyrir stjórnarandstöðuna. Það er betra fyrir alla, það græða allir á því.

Ég skil ekki hugarheim ríkisstjórnarflokkanna að sjá ekki færið í því að ljúka þinghaldi og fara inn í sumarið með málið sem flaug hér hátt í gær. Mér finnst það mjög merkileg niðurstaða að fólk sjái ekki tækifæri í því, ég tala nú ekki um í ljósi traustsins sem er afar lítið til handa þessari ríkisstjórn sem mér finnst reyndar afar vond en það er aftur annað mál.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson vakti athygli á þessu máli sem kom hér fyrst fram sem við ræðum núna, um breytingar á lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, fjársýsluskatt, tollalögum o.fl., að hér var auðvitað gert nefndarálit í vetur þegar þetta mál var fyrst til umfjöllunar. Ég hélt í einfeldni minni að núna við 3. umr. kæmi eitthvað sem héti framhaldsnefndarálit. Ég áttaði mig ekki á því að það væri búið að gefa út annað álit á þessu. Þetta er mál sem þykir ekki sérlega sjarmerandi þar sem fjallað er um tollaflokka. Þegar ég las fyrst nefndarálitið og bar niður í k-lið sá ég að þar var verið að tala um tollskrárnúmerabreytingu, inni í því voru kvoðulakk, náttúrulegar gúmkvoður og resín, gúmmíharpixar og eitthvað slíkt, og hugsaði með mér: Hvað er þetta eiginlega? Þó að maður þurfi ekki að setja sig djúpt inn í hvert einasta mál eru þessi mál samt hluti af tekjuöflun ríkissjóðs. Ég held að við höfum öll gott af því að máta okkur inn í málin. Þó að við þurfum ekki að setja okkur eitthvað óskaplega djúpt ofan í þau er verið að breyta hér miklu um virðisaukaskattinn. Til dæmis eru er verið að breyta 17 stafliðum sem koma svo fram í breytingartillögu.

Eins og ég segi langaði mig aðeins að rifja upp fyrra álitið og fara yfir það sem mér finnst sérstaklega skipta máli og er ánægð með að var tekið af skarið með að laga það í kafla sem heitir Skilyrði vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undanþegnar eru vörugjaldi. Ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:

„Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að allur vafi verði tekinn af um að það sé skilyrði niðurfellingar vörugjalda af bifreiðum sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðu fólki, samkvæmt ákvæði m-liðar 1. töluliðar 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að þær séu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði.

Í umsögn sem nefndinni barst var lýst áhyggjum vegna þess að ekki kæmi fram með nægilega skýrum hætti hvort lyfta, rampur, lyftusæti og lyftuarmur fyrir einstaklinga sem aka sjálfir teljist til búnaðar sem er sambærilegur hjólastólalyftu. Skilningur nefndarinnar er að þessi búnaður sé dæmi um búnað sem telst falla undir hugtakið sambærilegur búnaður.“

Ég hef talað meðal annars um niðurfellingu í virðisaukaskattskerfinu af búnaði fyrir fatlaða íþróttamenn en áttaði mig ekki á því þegar þetta var til umfjöllunar í fyrra skipti. Því var fundið margt til foráttu af hálfu ríkisskattstjóra sem svaraði svo spurningu eða öllu heldur ráðuneytið svaraði því til þegar ég spurði um vörugjaldaflokkana, um virðisaukaskattsnúmerin og annað að það væri erfitt að setja það niður á einhverja tiltekna flokka. Það virtist erfitt að svara því. Tilfellin eru ekki mörg um slíkar undanþágur og fjárhæðirnar ekki miklar, en það virtist standa mjög í málum að fá hér framgöngu. Ég kem til með að leggja það fram hér aftur. Hér er alltaf verið að vísa í heildarendurskoðun á virðisaukaskattslögum. Hér er verið að breyta töluvert mörgu lagalega í tengslum við mál sem komu fram í haust, en ef það er hægt held ég að þetta hljóti líka að vera hægt.

Hér var aðeins komið inn á skjölunarskyldu innlendra aðila sem eingöngu eiga í viðskiptum við aðra innlenda aðila. Í áliti meiri hlutans segir að nokkur gagnrýni hafi komið fram en mér sýnist miðað við álit minni hlutans að ekki hafi verið samhljómur í því hvernig ákveðið var að takast á við það. Ég tek undir að ég held að í ljósi hrunsins og þess sem á undan gekk hljótum við að vilja auka gagnsæi. Gagnsæi er ekki fólgið í því að skilgreina ekki tengsl á milli fyrirtækja eins og hér er í rauninni lagt til að þurfi ekki að gera. Mér finnst mistök af hálfu meiri hluta nefndarinnar að leggja þetta ekki til. Ég veit ekki hvaða hagsmunum er verið að þjóna hér því að það er svona með innleiðingar og annað að við getum farið yfir þær og þurfum ekki að innleiða þær í einu og öllu eins og þær koma fram. Þess vegna tel ég að verið hefði hægt að gera það með því að þær fjárhæðir sem hér eru sagðar vera meðal þeirra ástæðna sem ættu að vera íþyngjandi eru ekki slíkar að fyrirtæki eigi að koma eitthvað sérstaklega illa út úr því, þ.e. allra stærstu aðilarnir. Miðað við þær umsagnir sem hér liggja fyrir tel ég svo ekki vera. Minni hlutinn tekur undir að fjárhæðarmörkin séu hækkuð þannig að þá er í rauninni komið til móts við það. Í beinu framhaldi held ég að það ætti ekki að skorast undan því að setja skjölunarskyldu á þessa aðila.

Svo var tillagan um tryggingagjaldið sem við ræddum ansi mikið í tengslum við fjárlagagerðina. Það má svo sem segja að það sé jákvætt að ákveðið hafi verið að fylgja því ekki eftir. Það verður ekki hægt að segja annað enda skilar sér sú barátta sem átti sér stað, m.a. af hálfu verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðanna sem að þessu komu. Umræða okkar í þinginu hefur áhrif. Hún skiptir máli burt séð frá því að sumum þyki maður tala um of oft um tiltekna hluti.

Það sem hér er verið að breyta í lögum um skattinn snýst meðal annars um jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða. Ansi margir lögðust algjörlega gegn því og færðu fyrir því góð rök. Hér var talað um að nýgengi örorku væri hátt hjá mörgum af þessum aðilum og það þyrfti kannski að jafna lífeyri landsmanna. Oft hefur verið talað um einn lífeyrissjóð. Ég veit ekki hvort það er raunhæft, en ég tel að það væri afskaplega skynsamlegt að huga að því. Eins og stjórnarformaður Gildis – lífeyrissjóðs sagði þegar þetta var til umfjöllunar hefði skerðing lífeyrisgreiðslna og innvinnslu aldursháðra lífeyrisréttinda skerst um allt að 4,5% og svo átti þetta framlag ríkisins að hverfa á næstu fimm árum. Eins og ég segi er það í sjálfu sér afskaplega gott að þetta gengur ekki eftir. Ég vona svo sannarlega að af þessu verði ekki. Þetta átti að gerast á næstu fimm árum og nú man ég ekki nákvæmlega hvernig eða hvort þetta kemur fram í ríkisfjármálaáætlun sem er kannski eitt af því sem hægt er að velta hér upp í tengslum við það að hún fer til fjárlaganefndar á morgun.

Það er svo margt sem hægt er að tala um sem hefur farið miður varðandi launþegana og samskipti þessarar ríkisstjórnar við atvinnulífið sem gerðist hér í kringum fjárlögin. Ég hefði viljað hafa lengri tíma til þess.

Ég ætla líka að taka aðeins upp tillöguna frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni sem hann mælti þó ekki fyrir áðan þar sem hann leggur til að ríkisskattstjóri birti ekki lengur álagningarseðla skattaðila. Ég er algjörlega mótfallin því og tel að þetta sé einmitt mjög gott aðhaldstæki og í átt til opnunar og gagnsæis. Því finnst mér merkilegt að þetta sé lagt fram af pírata burt séð frá því sem við getum þá talið vera persónuvernd. Það er akkúrat þarna sem við komumst að því í tengslum við hrunið hvernig menn fóru með fé og skömmtuðu sér það. Ég vona svo sannarlega að við fellum þessa tillögu hér á þingi. Ég held að hún eigi ekkert erindi hingað inn og trúi því eiginlega í ljósi þess að hann leggur hana fram einn að meiri hlutinn felli hana ásamt að minnsta kosti okkur vinstri grænum, geri ég ráð fyrir, og jafnvel fleirum þannig að þetta verði hér eftir sem hingað til opinbert öllum aðilum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en hvet fólk til þess að lesa aðeins svona mál sem þykja ekki sérstaklega sjarmerandi og snúa að vöruflokkum og öðru slíku eða skattamálum. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta akkúrat stór hluti af tekjuöflun ríkissjóðs, alls konar svona hlutir sem renna oft í gegnum þingið án þess að fólk hafi hugmynd um innihaldið. Það greiðir bara atkvæði um einhverja stafliði og eitthvað slíkt og er ekki beinlínis meðvitað um hvað það er að greiða atkvæði um. Auðvitað reynum við, a.m.k. vinstri græn, að fá upplýsingar um það hjá okkar fulltrúum en ég veit ekki hvernig upplýsingagjöf annarra flokka er háttað til handa þingmönnum.