144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er komin fram krafa í þessum þingsal um að menn setjist núna niður og reyni að teikna upp einhverja mynd af því hvernig eigi að ljúka þessu þingi. Það verður að gera vegna þess að hér erum við til dæmis búin að samþykkja að menn komi með risastór mál inn í þingið með engum fyrirvara og þau verði sett á dagskrá. Þá verður bara að fara vandlega yfir þau mál sem hér eru eftir og hvernig menn ætla að koma þessu öllu fyrir. Það er ekki hægt að láta okkur byrja hér umræðuna á morgun um haftamálin með þetta allt saman upp í loft. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það og það er ekki heldur hægt að bjóða þjóðinni upp á að við fjöllum um jafn mikilvæg mál og þau með þingið að öðru leyti allt í uppnámi. Það litar hér alla umræðu og allt samstarf í þessum þingsal.

Ég fer fram á að þetta (Forseti hringir.) verði klárað hér í kvöld og menn setjist niður og reyni að fara yfir þetta allt saman. Það verður að gera hlé á þessum þingfundi núna á meðan forseti fundar með forustumönnum stjórnarandstöðunnar.