144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tek undir með hv. þingmanni. Ég tel eðlilegt að við séum að minnsta kosti búin að heyra sjónarmið forustu nefndarinnar hvað varðar þessa breytingartillögu frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og að menn séu aðeins búnir að ræða með hvaða hætti þeir sjá fyrir sér að farið verði með þá tillögu, því að það kallar á töluverða umræðu. Ég hefði talið að menn mundu koma hér og eiga samtal um það með hvaða hætti þeir sjá fyrir sér að með þetta verði farið.

Ég er með tvær spurningar. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Í breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í a-lið 2. breytingartillögu um breytingar á lögum nr. 50/1988, er fjallað um breytingar á viðauka við lögin þar sem sagt er að í stað hlutfallstölunnar 7% komi 11%. Ég geri mér grein fyrir því að það er handvömm, þ.e. að þegar menn ákváðu að hækka matarskattinn gleymdu þeir að hækka þessa tölu í viðaukanum. En mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að nú hefur breytingin verið í gildi í þó nokkurn tíma: Telur hv. þingmaður og hefur það komið fram í umfjöllun nefndarinnar hvort þetta hafi einhver áhrif? Hafa einhverjir greitt 11% sem heyra undir þennan viðauka? Getur hv. þingmaður aðeins útskýrt fyrir okkur hinum sem ekki eru í nefndinni og ekki fjölluðu um þetta mál hvað þetta felur í sér nákvæmlega?