144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:45]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sambandi við breytingartillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar eru rökin í mínum huga mjög margþætt. Í fyrsta lagi er birting augljóslega í átt til gagnsæis, þetta eru mikilsverðar upplýsingar sem vissulega varða almannahag, þ.e. skattgreiðslur manna, tekjur ríkisins í gegnum skattkerfið. Þetta er tæki gagnvart launamun kynjanna, það er alveg ljóst. Það er hægt að vinna úr þessum gögnum, fjölmiðlar og aðrir geta gert það meðan þau standa opin, m.a. til að rýna í hversu mikill launamunur, brúttólaunamunur eða eftir atvikum þá að einhverju leyti kynbundinn launamunur er í einstökum greinum. Þetta veitir verulegt aðhald því að þarna neyðast menn til að sýna laun sín, hvort sem þau eru óeðlilega lítil eða óheyrilega mikil, og þetta vinnur gegn einu sem er meinsemd í mínum huga, þ.e. launaleynd á vinnumarkaði. Þetta vinnur gegn henni, því að jafnvel þó að menn nái að halda launum sínum leyndum á vinnustaðnum birtast þau í vissum skilningi þarna þegar álagningin kemur. Og við sem höfum verið og erum talsmenn almennra gagnsærra kjarasamninga eigum þar af leiðandi væntanlega ekki í miklum vandræðum með að gera upp hug okkar í þessum efnum, geri ég ráð fyrir, það á að minnsta kosti við um róttækan jafnaðarmann eða sósíalista eins og mig og ég vona jafnaðarmenn almennt. (ÖS: Þú ert bara gamall …)

Varðandi ráðstöfum tryggingagjaldsins er það fagnaðarefni að stjórnin er að bakka, hún er að gefast endanlega upp. Hún var hrakin verulega á flótta með þetta fyrir áramótin. Það var nú, held ég, návígið við komandi kjarasamninga sem dró úr þeim kjarkinn því að þeir vissu að þeir gerðu þetta einhliða og algerlega í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins, algerlega, enda vöruðum við sterklega við því. Ég gerði það til dæmis í efnahags- og viðskiptanefnd og hafði kannski einhver áhrif á það að meiri hlutinn ákvað að bakka. Og svo þegar kemur inn í kjarasamningana eru þeir að sjálfsögðu snúnir niður með þetta. Nú verður óbreytt ástand (Forseti hringir.) í stað lækkunar um fjórðung sem annars hefði komið til núna 1. júní.